Búi Bjarmar Aðalsteinsson, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa framleitt orkustykki úr skordýrum , hefur nýlega stofnað fyrirtækið Grallaragerðin sem kemur til með að framleiða síróp og áfengi úr íslenskum gulrófum. „Þetta er fyrirtæki sem er stofnað í kringum tilraunaverkefni unnið núna í sumar 2016, þar sem við erum að skoða möguleika á fullnýtingu íslensk grænmetis. Með fullnýtingu á ég við að skoða það grænmeti sem fellur og grænmetisframleiðslu í heild og hvaða vaxtarmöguleikar eru til staðar,“ segir Búi.

„Í þessu fyrsta verkefni lögðum við sérstaka áherslu á íslensku gulrófuna. Við erum einnig að skoða möguleika á því að framleiða síróp úr rófunum og notum svo sírópið til þess að framleiða áfengi. Við búum þá til söluvöru sem er bæði íslenskt gulrófusýróp og íslenskt gulrófuáfengi,“ tekur Búi Bjarmar fram spurður um hvað fyrirtækið kæmi til með að taka sér fyrir hendur.

Reynsla af skordýraorkustöngum

Búi tók þátt í framleiðslu á orkustöngum sem búnar voru til úr skordýrum og taldi hann hafa lært mikið á þeirri framleiðslu. „Bakgrunnur minn er vöruhönnun. Ég sérhæfði mig í sjálfbærum framleiðslukerfum tengdri
matvöruframleiðslu. Ég lærði heilmikið á skordýraverkefninu, sem er enn þá í gangi. Það er komið í sölu erlendis. Þetta er því aðeins annar kafli sem opnast núna.

„Þessi kafli er meira tengdur Íslandi og staðbundinni framleiðslu. Ég vil skoða hvað við getum gert hérna heima til að efla vöxt garðyrkjunnar á Íslandi. Ég tel mikil sóknartækifæri þar í tengslum við það að stórum hluta grænmetis er hent, sem kemst ekki á markað. Svo nýta líka margir bændur bara hluta af ræktanlegu landi.

Hingað til hafa vaxtarmöguleikarnir takmarkast við íslenskan hrávörumarkað. Til dæmis fer eftirspurn eftir gulrófum upp og niður og er árstíðabundið, svo við viljum bæta fleiri stoðum undir virðiskeðjuna. Við viljum í því samhengi einnig skoða útflutning þar sem geymslutíminn kemur einnig til með að lengjast,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .