Vöruskipti við útlönd voru hagstæð um 5,6 milljarða króna í september síðastliðnum, sammkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en í september í fyrra nam afgangur af vöruskiptum 15,7 milljörðum króna. Svipuðu máli gegnir um vöruskipti við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins. Þau voru hagstæð um 48,7  milljarða samanborið við 82,3 milljarða á sama tíma í fyrra. Það er rúmlega 40% samdráttur á milli ára.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að í mánuðinum hafi vörur verið fluttar út fyrir 48,5 milljarða króna en inn fyrir 43 milljarða.

Verðmæti útfluttra iðnaðarvara, sem nam 52,2% af útflutningi, var 7,4% minna en í fyrra. Á sama tíma jókst verðmæti sjávarafurða, sem nam 43,3% af útflutningnum, um 8,9%.

Verðmæti innfluttra vara jókst hins vegar um 7,3% á milli ára.

Hagstofan