Hagnaður bandaríska álrisans Alcoa nam 138 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur 15,7 milljörðum íslenskra króna. Þetta er talsverður bati frá sama tíma í fyrra þegar tap fyrirtækisins nam 119 milljónum dala. Bætt afkoma skýrist einkum af hækkun á álverði og hagræðingaraðgerðum sem hafa skilað sér í minni rekstrarkostnaði en áður.

Fram kemur í uppgjöri Alcoa að tekjur fyrirtækisins á fjórðungnum námu 5,84 milljörðum dala borið saman við 5,85 milljarða á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Á sama tíma nam rekstrarkostnaður 5,63 milljörðum dala nú borið saman við 5,98 milljarða í fyrra. Þetta er nokkuð betri staða en markaðsaðilar höfðu búist við en spá þeirra gerði ráð fyrir að tekjurnar myndu nema 5,63 milljörðum dala.

Í uppgjöri Alcoa er haft eftir Klaus Kleinfeld, forstjóra Alcoa, að uppgjöri sýni að aðgerðir til að draga úr kostnaði hafi skilað árangri auk þess sem eftirspurn eftir áli í flugvélar og bíla hafi aukist mikið. Hann gerir ráð fyrir því að eftirspurn flugvélaframleiðenda muni aukast um 8-9% á árinu og bílageirans um 1-4%.