Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft hagnaðist um 5,11 milljarða dala, jafnvirði tæpra 650 milljarða íslenskra króna, á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þetta jafnast á við 60 sent á hlut. Þetta er þremur sentum meira en væntingar voru um. Tekjur námu 17,41 milljarði dala sem er 6% aukning á milli ára.

Gengi hlutabréfa Microsoft hækkaði um tæp 5,5% í kjölfar birtingar uppgjörstalna.

Bill Gates stofnaði Microsoft ásamt vini sínum Paul Allen árið 1975.

Aukin sala á tölvum, snjallsímum og smátækjum sem keyra á Windows-stýrikerfinu skýra afkomuna, að því er segir í uppgjörinu.

Von er á ýmsum nýjum afurðum frá Microsoft síðar á árinu. Nýja stýrikerfið, Windows 8, kemur á markað í haust, skrifstofuvöndullinn Office 15 sömuleiðis og farsímakerfið Windows 8. Prufuútgáfur af stýrikerfinu fyrir einkatölvur sýna, að það er gjörólíkt þeim stýrikerfum sem fólk hefur vanist frá Microsoft í gegnum tíðina.