Afkoma og árangur Orkuveitu Reykjavíkur var mun betri á árinu 2012 en gert var ráð fyrir í aðgerðaráætlun um viðsnúning í rekstri til 2016. Þetta kom fram á aðalfundi fyrirtækisins í gær. Handbært fé frá rekstri stendur nú undir afborgunum af lánum og fjárfestingu. Afkoma fyrirtækisins er þó enn neikvæð.

Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri Orkuveitunnar, gerði aðalfundargestum í gær grein fyrir rekstrarniðurstöðu ársins 2012 og vakti sérstaka athygli á þeim mikla árangri sem náðst hefur við að draga úr rekstrarkostnaði. Á föstu verðlagi hafa rekstrarútgjöld dregist saman um tæplega tvo og hálfan milljarð króna frá árinu 2010. Á sama tíma jukust tekjur Orkuveitunnar um 7,4 milljarða króna á verðlagi ársins 2012.

Rekstrarhagnaður OR nam á árinu 14,6 milljörðum króna. Afkoman var neikvæð um tæpa 2,3 milljarða króna. Flestir liðir aðgerðaráætlunar um bætta afkomu OR stóðust og var niðurstaðan um margt framar væntingum eins og áður segir. Liðurinn „eignasala“ var sá eini sem ekki gekk sem skyldi og námu tekjur af eignasölu 1,3 milljörðum króna 2011-2012 þar sem áætlanir gerðu ráð fyrir þremur milljörðum króna.