Rekstrarniðurstaða A-og B-hluta Reykjavíkurborgar var neikvæð um 4.464 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er þvert á væntingar um 277 milljóna króna rekstrarafgang.

Í árshlutauppgjöri borgarinnar kemur fram að niðurstaða A-hluta rekstrarreiknings hafi verið neikvæð um 2.807 milljónir króna sem er rúmlega hálfum milljarði verri niðurstaða en búist var við. Þá var niðurstaða B-hluta af rekstri borgarinnar neikvæð um 2.800 milljónir sem jafnframt er undir væntingum.

Tekið er fram í uppgjörinu að helsta ástæðan fyrir þessari óhagstæðu niðurstöðu megi rekja til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar upp á 1.300 milljónir króna samkvæmt bráðabirgðamati. Þetta er einum milljarði meira en búist var við.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 1.842 milljónir króna sem jafnframt er verri niðurstaða en reiknað var með. Áætlanir gerðu ráð fyrir halla upp á 1.358 milljónir króna. Mismunurinn nemur 483 milljónum króna.

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var lagður fram í borgarráði í dag.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnarFyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.

Uppgjör Reykjavíkurborgar