Afkoma af rekstri Strætó bs. á fyrri helmingi þessa árs var jákvæð um 8,4 milljónir króna, sem er nokkuð betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir. Til samanburðar var afkoman jákvæð um 79 milljónir á fyrri helmingi síðasta árs. Eigið fé félagsins hefur aukist um 83 milljónir frá síðustu áramótum, en þá var það í fyrsta sinn jákvætt frá árinu 2004. Horfur í rekstri Strætó fyrir seinni helming ársins eru ekki eins jákvæðar af því er fram kemur í frétt Strætó bs.

Rekstrartekjur Strætó á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 námu 1.593 milljónum króna en 1.659 milljónum á sama tímabili árið áður. Mismunur tekna skýrist að mestu af 150 milljóna króna lægri rekstrarframlögum eignaraðila til rekstrarins, en þessar 150 milljónir voru þess í stað lagðar í fjárfestingarsjóð sem stofnframlagsaukning.

Rekstrarafgangur eftir afskriftir var minni í ár en í fyrra, eða tæpar 20 milljónir samanborið við 95 milljónir á sama tímabili 2010.

Umsamin lækkun langtímaskulda nam tæpum 29 milljónum króna, vegna umbreytinga á erlendu láni, og skýrir jákvæða afkomu félagsins á fyrri helmingi ársins. Ellegar hefði afkoman eftir fjármagnsliði orðið neikvæð um 20 milljónir króna .

Eignir Strætó á miðju þessu ári voru 1.550 milljónir en um 1.510 milljónir í árslok 2010. Langtímaskuldir höfðu á sama tíma lækkað úr 785 milljónum á síðustu áramótum í 711 milljónir þann 30. júní 2011 og heildarskuldir úr 1.322 milljónum í 1.278 milljónir. Eigið fé Strætó nam 188 milljónum í árslok 2010 en 271 milljón um mitt þetta ár. Langtímaskuldir félagsins hafa lækkað hratt undanfarin ár og er stefnt að því að félagið verði skuldlaust í árslok 2017.

„Markvisst hefur verið unnið að því að treysta rekstargrundvöll Strætó frá árinu 2007 eftir mikinn hallarekstur næstu ár þar á undan. Sú vinna hefur til þessa gengið vel. Þar hefur bæði komið til aukið stofnframlag sveitarfélaganna og mikið aðhald í rekstrinum. Horfur fyrir seinni helming ársins eru hins vegar því miður ekki jákvæðar. Það skýrist að stærstum hluta af hækkun eldsneytisverðs, meiri verðbólgu en vonir stóðu til og nýlegum kjarasamningum, sem höfðu meiri kostnaðarauka í för með sér en ráð var fyrir gert. Auk þess hefur fjölgun strætisvagnafarþega, eins og verið hefur undanfarna mánuði, haft í för með sér aukinn kostnað og mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó við núverandi aðstæður. Þrátt fyrir allt má þó vel við una,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.