Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Hagstofu Íslands er afkoma sveitarfélaga talin hafa verið í járnum árin 2002 og 2003 eftir mikinn hallarekstur árin þar á undan. Þessi þróun endurspeglar meðal annars áhrif hækkunar tekna á útsvarstekjur segir í vefriti fjármálaráðuneytisins. Eins hafa tekjur sveitarfélaga af fasteignagjöldum hækkað í takt við hækkun fasteignaverðs.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er aftur gert ráð fyrir lítils háttar halla á árinu 2004 en afgangi árin 2005 og 2006. Í spánni er gengið út frá þeirri forsendu að launakostnaður sveitarfélaga hækki í takt viðniðurstöður kjarasamninga á almenna markaðnum.

"Það er rétt að hafa í huga að nokkur munur er á uppgjörsaðferðum sveitarfélaganna annars vegar og þjóðhagsreikningauppgjöri Hagstofunnar og fjármálaráðuneytisins hins vegar. Síðarnefnda uppgjörið fylgir þjóðhagsreikningastaðli Evrópusambandsins en uppgjör sveitarfélaganna byggir á almennum reikningsskilavenjum í samræmi við ákvæði laga um bókhald og ársreikninga frá árinu 2002," segir í vefritinu.

Munurinn tekur bæði til tekju- og gjaldahliðar og frávikið getur reyndar verið
í báðar áttir hvað varðar afkomu sveitarfélaga. Í þjóðhagsreikningauppgjörinu eru t.a.m. tekjur af sölu fasteigna, véla og tækja ekki taldar með tekna megin heldur koma þær til frádráttar kaupum á samsvarandi eignum og færast á gjaldahlið. Þá er tekjuafkoma Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna tekin með í þjóðhagsreikningauppgjörinu en ekki í uppgjöri sveitarfélaga. Ennfremur eru kaup og sala hlutabréfa og afskrifaðar og niðurfærðar kröfur inni í útgjaldauppgjöri
sveitarfélaganna en þessir liðir eru færðir yfir á fjármagnsreikning í
þjóðhagsreikningauppgjörinu. Loks getur munað miklu í færslu lífeyrisskuldbindinga.