Fjárfestingarleið Seðlabankans gæti gengið á gjaldeyrisforðann á seinni stigum og fært skuldir einkaaðila yfir á hið opinbera. Þetta kom fram í máli Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra.

Hann kynnti fyrir stundu leið bankans í afnámi gjaldeyrishafta sem hafa verið við lýði hér á landi í þrjú ár.

Leið Seðlabankans felst í útboðum þar sem erlendum gjaldeyri er skipt út fyrir íslenskar krónur.

Arnór lagði áherslu á að á fyrstu skrefum muni afnám haftanna ekki hafa áhrif á gjaldeyrisforðann þar sem leyfður verði innflutningur á aflandskrónum í eigu fjárfesta og færist aðrar eignir á móti. Útboðin og gjaldeyriskaupin telur Arnór taka nokkurn tíma, jafnvel nokkur ár. Að þeim tíma liðnum megi ekki útiloka að aðgerðirnar geti gengið á forðann.

„Þegar þessum aðgerðum lýkur - sem munu væntanlega  taka talsverðan tíma - þá koma til álita aðgerðir sem gæti gengið á forðann í einhverjum mæli. En hugsunin auðvitað með þessum fyrstu aðgerðum er að takmarka mjög áhættuna,“ segir Arnór og bætir við að á seinni stigum verði lagt útgöngugjald á fjárfesta.

Ástæðan fyrir því að gjaldið er ekki lagt á í upphafi eins og lagt hafi verið til svarar Arnór: „Það er meðal annars vegna þess að ef við förum þá leið strax í upphafi þá er hvatinn sem forsenda þess - eða flýtir fyrir því að fjárfestar vilji eignast þessar krónur - ekki lengur fyrir hendi. Þessi mismunur sem er á hinu opinbera gengi hér heima og aflandskrónugenginu fer þá allur í ríkissjóð. Þetta felur í sér hættu á að útflæðið verði meira á kostnað gjaldeyrisforðans og að í versta falli að skuldum einkaaðila verði velt yfir á hið opinbera. Að auki fylgir þessu meiri óstöðugleiki fyrir fjármálakerfið.“