Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 47,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 37,6 milljarða í fyrra. Aflaverðmæti hefur því aukist um 9,7 milljarða eða 25,8% á milli ára.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að aflverðmæti botnfisks nam 29 milljörðum króna og jókst það um 24,2% frá sama tíma í fyrra   þegar aflaverðmætið nam 23,3 milljörðum. Þá nam verðmæti uppsjávarafla um 14,7 milljörðum króna sem er um 35% aukning á milli ára. Hagstofan segir aukninguna skýrast að mestu leyti af 13 milljarða króna loðnuafla samanborið við 8,7 milljarða á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.