Aflaverðmæti íslenskra skipa var tæpir 8,4 milljarðar krona í apríl síðastliðnum, sem er um 26 prósentum minna en í apríl árið 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands , en Fiskifréttir segja frá. Fiskafli íslenskra skipa í apríl var þó 5 prósent meiri en heildaraflinn í apríl 2016, eða 109 þúsund tonn. Munar þar mestu um aukinn kolmunnaafla.

Ríflega 20 prósenta samdráttur varð á aflaverðmæti íslenskra skipa á tólf mánaða tímabili, frá maí 2016 til apríl 2017 miðað við sama tímabil ári fyrr. Aflaverðmæti nam seinna tímabilinu 115 milljörðum króna.

Í aprílmánuði nam verðmæti botnfiskaflans nam 6,5 milljörðum sem er 22,6% samdráttur miðað við apríl 2016. Verðmæti þorskaflans dróst saman um 25,2%, og samdráttur varð einnig í verðmæti svo til allra annarra tegunda. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 34,9% og verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 29%.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu frá Hagstofunni að á fyrri helmingi ársins 2017 hafi 92,886 milljónir króna fengist fyrir útfluttar sjávarafurðir, en á samatímabili árið áður nam útflutningsverðmætið 118.862 milljónum. Þetta er 21,9 prósenta samdráttur, og varð samdrátturinn mestur í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum.