Heildarafli íslenskra skipa á árinu 2013 var tæp 1.363 þúsund tonn og er það 86 þúsund tonnum minna en árið 2012. Þetta kemur fram í ritinu Afli, aflaverðmæti og ráðstöfun afla 2013 sem gefið er út af Hagstofu Íslands .

Aflaverðmæti nam tæpum 153 milljörðum króna og dróst saman um 4,1% frá fyrra ári, eða um 2,2% ef mælt er á föstu verði.

Stærsti hluti aflans var unninn á Austurlandi og var að megninu til uppsjávarafli sem þar var landað. Stærsti hluti botnfisksafla var unninn á höfuðborgarsvæðinu eða 29,4%.

Verðmæti aukaafurða sem féllu til við vinnslu fiskaflans nam tæpum 5 milljörðum króna á árinu 2013 og jókst um 9,6% frá árinu áður. Það telst þó ekki með inni í heildaraflaverðmæti.

Mestur útflutningur sjávarafurða var til Bretlands eða um 16,3% af aflaverðmæti. Útflutningur til Norður Ameríku jókst jafnframt um 15,6% milli ára. Útflutningsframleiðsla sjávarafurða jókst um 2,2% frá árinu 2012.