Margir grípa til síðarnefnda hugtaksins um þessar mundir þegar kemur að umræðum um hina miklu sprengingu sem orðið hefur í afleiðuviðskiptum síðasta áratug, þá sérstaklega þegar kemur að markaðnum með lánaafleiður (e. credit derivatives).

Talið er að verðmæti útistandandi lánaafleiðusamninga sé ríflega 60.000 milljarðar Bandaríkjadala – þriðjungur af þessari upphæð samanstendur af hinum svokölluðu skuldatryggingum (CDS) og skapa þeir gríðarlega flókið net á fjármálamörkuðum. Þetta net er ógagnsætt og það gerir það að verkum að erfitt er að átta sig á orsök og afleiðingu: Hrun á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum kann að gera sveitarstjórnaryfirvöld í Norður- Noregi gjaldþrota.

Það er til að mynda út af þessu flókna orsakasamhengi sem bandaríski seðlabankinn ákvað að beita sér fyrir björgun fjárfestingarbankans Bear Stearns í marsmánuði. Hann hafði það mikið magn af afleiðusamningum á bókum sínum að fall hans hefði getað orsakað kerfislægt hrun á fjármálamörkuðum.

Að rusla til og taka þóknun fyrir að þrífa eftir sig

Það segir kannski meira en mörg orð um þróunina á afleiðumörkuðum að margir af helstu frumkvöðlum slíkra samninga innan fjárfestingarbankanna starfa nú við að aðstoða fjárfesta við að skilja hvers slags fjármálagjörningum þeir hafa tekið stöðu í eða hjálpa þeim að losa sig úr flóknum afleiðustöðum.

Eins og fram kemur í nýlegri fréttaskýringu Gillian Tett, ritstjóra umfjöllunar Financial Times um fjármálamarkaði, gæti þetta ástand verið í augum margra kraftbirtingarform alls þess sem er að nútímafjármálastarfsemi: Fyrst auðgast bankamenn á því að höndla með fjármálagjörninga sem enginn skilur og svo auðgast þeir enn frekar á því að hjálpa upphaflegu fjárfestunum að hreinsa upp draslið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .