Alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn Íran hefur verið aflétt eftir að eftirlitsaðilar staðfestu að landið færi eftir samningi um kjarnorkuáætlun landsins sem undirritaður var í júlí. Búist er við að afléttingin hafi umtalsverð jákvæð áhrif á íranska hagkerfið, sem getur nú orðið mun meiri þátttakandi í alþjóðahagkerfinu.

Íran þurfti að minnka til muna ýmsan búnað sem landið hefði geta notað til að búa til kjarnorkuvopn. Íranir hafa alltaf haldið því fram að kjarnorkuáætlun landsins hafi ekki hernaðarlegt hlutverk, en margir - meðal annars sumir repúblikanar - halda því fram að samningurinn tryggi ekki nægilega vel að landið geti ekki búið til kjarnorkuvopn.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði á Twitter að hann þakkaði guði fyrir þessa blessun og að hann hneigði sig fyrir hinni stórkostlegu og þolinmæðu írönsku þjóð. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði heiminn vera öruggari vegna tíðinda dagsins.

Opnar á fjárfestingar

Aflétting viðskiptaþvinganana hefur margvísleg jákvæð áhrif í íranska hagkerfið. Íran er í fjórða sæti yfir þau lönd sem hafa mestar olíulindir. Þó verð olíu sé í mikilli lægð er framleiðslukostnaður olíu í Íran einstaklega lítill - á sumum svæðum aðeins 2 dollarar á tunnuna.

Ljóst er að aflétting hafta á 50 milljarða dollara eignir íranskra stjórnvalda erlendis mun hjálpa við að byggja upp olíuiðnaðinn og ýmsa innviði. Þá hefur Bloomberg eftir Paolo Scaroni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eni Spa, stærsta orkufyrirtækis Ítalíu, að allir horfi nú til Íran vegna fjárfestingartækifæra.

Sádí-Arabíu finnst sér ógnað

Sum nágrannalanda Írans, einkum Sádí-Arabía og Ísrael, segja að aflétting þvingana styrki einræðisstjórnina í Teheran í sessi og auki enn á óstöðugleikann í Mið-Austurlöndum. Spennan milli Sádí-Arabíu og Íran hefur vaxið síðan skrifað var undir samninginn í júlí.

Aflétting viðskiptaþvingananna hefur ekki aðeins áhrif á hernaðarlegt valdajafnvægi í heimshlutanum heldur einnig bein áhrif á olíuframleiðsluríki. Búist er við því að írönsk olía flæði inn á heimsmarkaðinn strax í dag eða á morgun með tilheyrandi áhrifum á framboð og verð. Hlutabréf í Sádí-Arabíu lækkuðu um 7% við opnun markaðar í morgun þegar ljóst var að viðskiptaþvingunum gegn Íran yrði aflétt. Hlutabréf í Dubai lækkuðu um 4,6 prósent.