Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum desembermánuði, metinn á föstu verði, var 13,1% meiri en í desember árið á undan. Á síðasta ári veiddist 4,5% meiri afli en 2012, sé aflinn metinn á föstu verði. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Aflinn nam alls 50.421 tonnum í desember síðastliðnum samanborið við 42.814 tonn í desember 2012 sem er 17,8% aukning á magni milli ára. Botnfiskafli jókst um 2.600 tonn frá desember 2012 og nam tæpum 33.400 tonnum. Afli uppsjávartegunda nam rúmum 15.400 tonnum, sem er tæplega 5.700 tonnum meiri afli en í desember 2012.