Formaður félags útgefenda segir í samtali við RÚV að ríkisstjórnin ætti að afnema með öllu virðisaukaskatt á bókum í stað þess að hækka hann eins og áformað er.

Ríkisstjórnin ætlar að breyta virðisaukaskattskerfinu og hafa það í einu þrepi, í stað tveggja eins og staðan er núna. Þá mun efra þrepið sem er 25,5 prósent lækka, en á móti mun neðra þrepið, sem er 7 prósent, hækka. Bækur eru í neðra þrepinu og mun verð þeirra því hækka.

Egill Örn Jóhannsson, formaður félags útgefenda, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að bókaútgefendur vonist til að í stað verðhækkunar verði bækur gerðar undanþegnar virðisaukaskatti. Hann segir ekki óalgengt að þjóðir afnemi virðisaukaskatt á bókum og að það væri í fullkomnu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka og efla læsi ungmenna. Egill telur að jafnvel lítil hækkun á bókaverði geti haft veruleg áhrif á íslenskan bókamarkað.