Eftir viðskipti síðustu viku ber Burðarás yfirtökuskyldu í Kaldbaki, sem verður þá afskráð úr Kauphöllinni í kjölfarið. Atorka hefur gert hluthöfum Sæplasts yfirtökutilboð og stefnir í framhaldinu að afskráningu félagsins. Atorka vinnur einnig að yfirtöku og afskráningu á systurfélagi sínu, Afli fjárfestingarfélagi og lauk í sumar við yfirtöku og afskráningu á Lífi. Þar fyrir utan hafa sjö félög verið afskráð úr Kauphöllinni það sem af er ári, en það eru: Eskja, Guðmundur Runólfsson, Hlutabréfamarkaðurinn, Hraðfrystihúsið Gunnvör, Stáltak, Vaki-DNG og Þorbjörn Fiskanes.

Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að áfram megi búast við að félögum á markaði fækki og að það verði einkum smærri félögin sem verði afskráð. Við teljum líklegt að félögum muni fækka um allt að 10 á næstu 2-3 árum. Á móti má búast við að ný félög bætist í hópinn í Kauphöllinni en að þau verði mun færri, mögulega 3-4 á næstu 2-3 árum segir í Morgunkorninu.