Markaðir héldu áfram að hækka í dag vestanhafs. Nasdaq hækkaði um 1,6% og stendur vísitalan nú í 2709,03 stigum. Dow Jones um 1,3% og Standard & Poor's um 1,5%.

George Bush, bandaríkjaforseti tilkynnti í dag um áætlun hins opinbera til að mæta þeim sem illa hafa komið út úr erfiðleikum á fasteignamarkaði undanfarin misseri. Almenningi mun á næstunni bjóðast að endurfjármagna lán sín eða frysta vexti næstu árin með aðstoð yfirvalda. Eins og Viðskiptablaðið greindi fá í gær var þegar búist við þessum fréttum en fjármála- og byggingarfyrirtæki leiddun hækkun dagsins og tengist það tilkynningu bandaríkjastjórnar. Talið er að um 1,2 milljón heimila muni njóta góðs af aðgerðum yfirvalda.

Ekki eru þó allir á eitt sáttir við tillögur ríkisstjórnarinnar en greiningadeild Standard & Poor's varaði við því að vextir yrðu verðlagðir vitlaust og hvatti frekar til þess að markaðurinn fengi tíma til að jafna sig án afskipta hins opinbera.

Eins og fyrr segir hækkuðu fjármálafyrirtæki, sérstaklega þau sem lána til fasteignakaupa eða fjármagna slík lán, töluvert við þessar fréttir. Einnig hækkuðu byggingarfyrirtæki og fyrirtæki með smávörur fyrir heimili líkt og Sears og JCPenny.

Forsvarsmenn risakeðjunnar Target sögðu þó í dag að verslun í smásölu þyrfti að taka við sér í desember ætlaði fyrirtækið að skila fyrirfram ákveðnum hagnaði. Verslun í smásölu hefur ekki verið eins góð og búist var við það sem af er af haustinu og má segja að jólainnkaupin fari seint af stað.

Olíuverð hækkaði um 1,3% í dag og kostar olíutunnan nú 90,23 bandaríkjadali.