Velta á fasteignamarkaði í vikunni minnkaði talsvert milli vikan eða um 34%, þrátt fyrir að fjöldi þinglýstra kaupsamninga hafi ekki breyst mikið, en þeir voru 72 í vikunni 18.-27. júlí en voru 79 í vikunni á undan. Þetta kemur fram á vef Fasteignamats ríkisins (FMR).

Á myndinni hér til hliðar má sjá breytingu á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára. Fasteignasala sveiflast gjarnan mikið á milli vikna og þess vegna er horft til meðalveltu fjögurra vikna og breytinga á henni milli ára.

Í vikunni sem leið var velta á fasteignmarkaði um 2,1 milljarður en var í fyrri viku um 3,2 milljarðar sem var þó nokkuð yfir meðallagi en meðalvelta á viku undanfarna þrjá mánuði er 2,0 milljarðar.

Á ársgrundvelli hefur velta á fasteignamarkaði dregist saman um 67% og gefur það heildstæðari mynd af fasteignamarkaði. Kaupsamningum hefur fækkað milli ára og er vægi hvers kaupsamnings meira fyrir vikið. Auk þess getur hver samningur falið í sér fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru mismunandi.

Meðalvelta á hvern samning í vikunni var tæplega 29,3 milljónir króna en í fyrri viku var meðalvelta á hvern samning nokkuð há eða 40,3 milljónir.