Erfiðleikar steðja að verslunarkeðjunni Big Food Group ef marka má umfjöllun Financial Times og The Indepentent um rekstur félagsins sem birtist í gær. Fram kemur að eigendur BFG álasi þeim verðþrýstingi sem verið hefur í breska smásölugeiranum að undanförnu fyrir lélegum fyrsta ársfjórðungi í rekstrinum. Verð á matvöru hafi verið að lækka á undanförnum mánuðum og er búist við 1,5% "verðhjöðnun" á yfirstandandi ári. Bill Grimsey forstjóri BFB segir samkeppnina vera þá hörðustu um árabil en Baugur Group á 22% hlut í félaginu.

Í The Independent er sérstaklega tekið fram að rekstur Iceland keðjunnar, sem er hluti af BFG samstæðunni, gangi illa þrátt fyrir ýmsar úrbætur sem staðið hefur verið fyrir. Allt of margar búðir innan Iceland keðjunnar hafa dregist aftur úr í samkeppninni og erfitt verði að koma rekstrinum í skikkanlegt horf að nýju. Þannig er vandamál BFG er tvíþætt: Í fyrsta lagi er rekstur félagsins ekki að skila nógu miklu fjárstreymi til þess að standa undir nauðsynlegum útlits- og þjónustubreytingum á verslununum. Í öðru lagi eru stærri keppninautarnir líkt og Tesco að að færa sig yfir í sambærilegan rekstur örar en BFG getur náð að verjast.

Spjótin standa þannig að BFG úr öllum áttum og markaðurinn hefur fylgt því eftir sem sjá má á lækkun hlutabréfaverðs félagsins á undanförnum mánuðum. Bréf félagsins höfðu lækkað um rúm 4% í gær og stóð hluturinn í 82 pensum þegar blaðið fór í prentun. Hafa bréf félagsins þokast hægt og bítandi niður á við frá 5. febrúar sl. og nemur lækkunin nú alls 55% frá þeim tíma. Markaðsvirði eignarhluta Baugs Group nemur því um 8,5 milljörðum króna í dag.