Áhersla er lögð á áframhaldandi jarðhitaleit í sveitarfélaginu í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2008-2020 að því er kemur fram í frétt Bæjarins besta á Ísafirði. Líklegt er talið að hægt sé að nýta heitt vatn víðar en gert er í dag, en frekari athugana er þörf á þessu sviði.

Í fréttinni kemur fram að gert er ráð fyrir að á landbúnaðarsvæðum verði heimilt að leita eftir vatni og nýta hugsanlegt vatn til búreksturs, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Finnist heitt vatn sem er nýtanlegt til annarra nota svo sem til húshitunar á stærra svæði eða til iðnaðar utan býlisins skal breyta aðalskipulaginu í samræmi við það. Í Tungudal er jarðhiti sem ekki hefur enn tekist að nýta. Ekki er þó vitað hvar framtíðarmannvirki þessu tengdu verða staðsett takist að nýta jarðhitann. Jarðhita er að finna í Ísafjarðarbæ þó svæðið teljist til svokallaðra kaldra svæða.  Um nokkurt skeið hefur verið leitað að heitu vatni í Tungudal sem nýta mætti til húshitunar á Ísafirði. Sú leit hefur enn ekki borið árangur en sérfræðingar telja að þar sé að finna nýtanlegt heitt vatn segir í frétt BB.