Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði mikið annan daginn í röð og endaði daginn í 3550 stigum. Samtals námu viðskipti dagsins með hlutabréf rúmum 10 milljörðum kr. Í prósentustigum nam lækkunin í dag 4,23% og hefur Úrvalsvísitalan aðeins einu sinni lækkað jafnmikið innan dags en það var 2. maí 2001 og þegar hún lækkaði um 4,62%.

Úrvalsvísitalan hefur nú lækkað undanfarna daga og 10 daga meðaltal verðbreytinga sýnir að vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið síðan í maí 2000 að sögn greiningardeildar KB banka. Undanfarna 10 daga hefur vísitalan lækkað að jafnaði um 0,862% og í dag lækkuðu 13 af 15 félögum í vísitölunni. Opin Kerfi Group og Össur eru einu félögin sem ekki lækkuðu í dag og eru þau jafnframt einu félögin ásamt Og Vodafone sem ekki hafa lækkað það sem af er október.