Stöðug verðhjöðnun hefur plagað japanskt efnahagslíf allt frá upphafi árs 1999. Almennt verðlag lækkaði um 0,5% í maí frá sama mánuði fyrra árs en hjöðnun í maí frá fyrra mánuði nam 0,1%. Ljóst má vera að hagstjórnaraðilar landsins hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með verðþróunina að undanförnu, því leita þarf aftur til ársins 1997 til að finna dæmi um sambærilegt hagxtarskeið.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka. Þar kemur ennfremur fram að ef aukin spurn eftir útflutningi og vöxtur einkaneyslu verður með svipuðu móti og verið hefur mun það stuðla að auknum verðbólguþrýstingi á næstunni. Ef svo fer þá er að vænta vaxtahækkana í kjölfarið ? þeir hafa verið óbreyttir frá upphafi árs 2001 - sem mun auka sparnað einstaklinga og þ.a.l. lausafé í hagkerfinu. Eftir þessari atburðarrás er beðið með eftirvæntingu í Japan en markaðsaðilar telja að hagkerfið muni feta þessa slóð á næstu 12 mánuðum segir í Hálffimm fréttum.