Bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, eigendur Ikea samstæðunnar leggja til  290 milljóna króna framlag með ábyrgðum og greiðslum lána á sama tíma og lánadrottnar afskrifa 1.285 milljóna króna skuldir hjá samstæðunni. Þetta kemur fram í ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Miklatorg hf.

Eignarhaldsfélagið Miklatorg ehf. á þrjú félög, Miklatorg hf. sem sér um rekstur Ikea, Urriðakot ehf., sem á fasteignina þar sem verslun Ikea er til húsa og Fasteignafélagið Sýsla ehf. sem á fasteignirnar að Kauptúni 3,5 og 7 skammt frá verslun Ikea. Rekstrarfélag Ikea leigir húsnæði af báðum systurfélögum sínum eftir því sem fram kemur í ársreikningi félaganna.

Samkvæmt ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Miklatorgs ehf. lauk viðræðum við lánadrottna um fjárhagslega endurskipulagningu Fasteignafélagsins Sýslu um miðjan desember 2011. Í endurskipulagningunni fólst að lán Fasteignafélagsins Sýslu voru lækkuð um 1.285 milljónir króna en hluthafar lögðu til 145 milljónir í formi hlutafjár til viðbótar við ábyrgðir að upphæð 145 milljónir króna.

Sigurður Gísli vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður hafði samband við hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.