Agnar Hansson hefur verið ráðinn bankastjóri Icebank en samkomulag hefur orðið um að Finnur Sveinbjörnsson sem verið hefur bankastjóri láti af störfum hjá bankanum, að því er segir í tilkynningu bankans.

Í tilkynningunni segir ennfremur að Agnar hafi verið framkvæmdastjóri fjárstýringar Icebank sl. tvö ár og hafi rúmlega tíu ára starfsreynslu úr fjármálageiranum. Hann hafi m.a. starfað að uppbyggingu  Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA) og verið fyrsti deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Agnar er fæddur 1965 og er með meistarapróf í raunvísindum og hagfræði frá Háskólanum í Árósum.

„Finnur hefur stýrt Icebank frá árinu 2002 og leitt bankann í gegnum mikið umbreytingaferli á undanförnum misserum. Umsvif bankans hafa vaxið verulega undir stjórn Finns. Í árslok 2001 námu heildareignir hans 54 milljörðum króna en í árslok 2007 er áætlað að heildareignir verði liðlega 200 milljarðar króna.  Ennfremur hefur hlutverk bankans sem þjónustubanki sparisjóðanna verið útvíkkað, honum fengin ný verkefni m.a. á sviði fjárfestingarbankastarfsemi og fyrirtækjaráðgjafar. Þá hefur eignarhald bankans einnig breyst á síðustu vikum eins og áður hefur verið greint frá,“ segir í tilkynningu Icebank.