Ísland getur staðið af sér óhagstæða niðurstöðu í Icesave-málinu, að sögn Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi. Í samtali við Bloomberg fréttastofuna segir Franek að fari svo að Ísland tapi málinu, en niðurstöðu er að vænta á mánudaginn, geti það kostað ríkið allt að um 20% af vergri landsframleiðslu, eða um 335 milljarða króna.

Franek segir að greining á sjálfbærni skulda íslenska ríkisins leiði í ljós að jafnvel þótt þessi fjárhæð legðist á núverandi skuldir ríkissjóðs ætti hann samt sem áður að geta staðið við skuldbindingar sínar, þrátt fyrir að höggið væri vissulega þungt.

Athuga ber að þessi fjárhæð, 335 milljarðar, er versta hugsanlega niðurstaða fyrir Ísland að mati AGS og margar aðrar koma til greina.

Í frétt Bloomberg er einnig rætt við Pál Benediktsson, talsmann slitastjórnar gamla Landsbankans. Hann segir að bankinn sé nú þegar búinn að greiða út helming forgangskrafna í búið, eða um 650 milljarða króna, og miðað við stöðuna nú duga eignir bankans til að greiða allar forgangskröfur og vel ríflega það.