Hagvöxtur á heimsvísu verður í lægri kantinum á þessu ári eða 2,9% og 3,6% á næsta ári, samkvæmt nýjustu hagspá Alþjóðagjaldeyrisjóðsins (AGS). Í hagspá sjóðsins segir að hægt hafi á hagvexti í nýmarkaðsríkjum, óvissa ríki í Evrópu eins og í Bandaríkjunum. Í hagspá sjóðsins segir m.a. að hætta sé á að hagkerfi heimsins geti orðið lengi að ná sér á skrið sem gæti valdið því að atvinnuleysi verði áfram mikið. Þessi þróun geti svo leitt til þess að lífskjör versni.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir í umfjöllun sinni um málið að AGS hafi fært hagvaxtarhorfur sínar niður í níu skipti af tíu síðan árið 2007.

AGS bendir þó á að horfurnar séu ekki alslæmar. Því til stuðnings segir í hagspánni að einkageirinn standi traustari fótum í Bandaríkjunum en óttast var og virðist samdráttarskeiði lokið í nokkrum Evrópuríkjum. Engu að síður eru stoðir Evrópu enn veikar, að mati AGS.