Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, hefur samþykkt 2,6 milljarða dala lán til Sri Lanka þrátt fyrir andstöðu Breta, Bandaríkjamanna og Frakka, sem hafa áhyggjur af mannréttindabrotum og hafa efasemdir um vilja Sri Lanka til breytinga.

Þetta kemur fram í WSJ sem segir að hjá AGS fari ekki fram atkvæðagreiðsla meðal aðildarríkjanna um lánveitingar, sem séu almennt samþykktar sameiginlega. Þegar andstaða sé sitji ríki hjá og slíkt sé jafnvel sjaldgæft.

Fyrsta hjáseta Breta frá árinu 2004

Bretar hafi t.a.m. síðast setið hjá árið 2004 vegna ráðstafana sem tengdust Argentínu. Nokkur önnur ríki hafi einnig setið hjá vegna Sri Lanka, hefur WSJ eftir embættismanni hjá sjóðnum.

Í fréttinni kemur fram að forstjóri sjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, reyni almennt ekki að koma láni í gegn ef við það sé veruleg andstaða. Í þessu tilviki hafi hins vegar verið skýr meirihluti fyrir lánveitingunni, sérstaklega í Asíu. Sumir meðlimir AGS hafi haft af því áhyggjur að það að hætta við lánið eða að tefja það frekar kynni að valda fjármálakreppu á Sri Lanka.

Viðræður um aðstoð hófust þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu Bandaríkjanna

Herinn á Sri Lanka sigraði skæruliða Tamíl tígranna í maí sl. eftir áratuga baráttu. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, sagði um það leyti að Bandaríkin væru á móti því að AGS veitti Sri Lanka lán og sagði að bíða ætti þar til átökin væru að fullu um garð gengin.

Þrátt fyrir þetta, segir í frétt WSJ, hóf AGS samningaviðræður við Sri Lanka um efnahagsáætlun sem borin var upp í stjórn sjóðsins í gær.