Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur verið hér á landi síðustu tvær vikur, segir miklar kröfur verkalýðsfélaga um launahækkanir ógna þeim stöðugleika sem náðst hefur í íslensku efnahagslífi. Þetta kemur fram í greiningu sendinefndarinnar sem kynnt var á blaðamannafundi nú í morgun.

Í greiningunni segir meðal annars að þær hækkanir, sem krafist hefur verið í kjaraviðræðum, muni leiða til aukinnar verðbólgu og grafa undan bata í efnahagslífinu nái þær fram að ganga.

Samningsaðilar verði að vinna að kjarasamningum sem feli í sér hækkanir í samræmi við framleiðnivöxt og verðbólgumarkmið Seðlabankans til að komast hjá því.