Erlendar skuldir Actavis, sem eru rúmar 1.000 milljarðar króna, eru á gjalddaga á árunum 2014 til 2016.

Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um efnahagsáætlun Íslands sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Skuldin Actavis nemur um 70 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF). Yfirtaka Novators, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, á Actavis sumarið 2007 var fjármögnuð að mestu  með risaláni frá hinum þýska Deutsche Bank. Landsbankinn og Kaupþing lánuðu einnig hundrað milljónir evra hvort til Novator í tengslum við yfirtökuna.

Í endurskipulagningu hjá Merril Lynch

Bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch hefur veitt Actavis ráðgjöf um framtíðarendurskipulagningu fyrirtækisins frá því í október í fyrra, þegar íslensku bankarnir hrundu. Í þeirri endurskipulagningu hafa nokkrar leiðir verið skoðaðar. Meðal annars hefur komið til greina að selja Actavis, sameina það öðru lyfjafyrirtæki eða jafnvel skrá það aftur á markað. Ekkert af þessu þrennu hefur þó enn gerst.

95 prósent tekna Actavis erlendis frá

Um 95 prósent af starfsmönnum og tekjum Actavis koma erlendis frá. Þessi eina stóra skuldbinding íslensks félags hefur hins vegar veruleg áhrif á stærð erlendra skulda einkaaðila í skýrslunni.

Þær eru áætlaðar um 2.700 milljarðar króna í lok árs 2009, eða um 181,7 prósent af VLF. Reiknað er með að erlendar skuldir einkaaðila muni lækka jafn og þétt næstu fimm árin og að þær verði um 95,9 prósent af VLF í árslok 2014.