Íslenska efnahagslífið er smátt og smátt að komast í gang á ný og á allra næstu misserum er mjög líklegt að svigrúm verði til stýrivaxtalækkana. Hins vegar er enn talvert í að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin.

Þetta sagði Mark Flanagan, sem leitt hefur sendinefnd Aljóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi síðustu tvær vikur, á blaðamannafundi í Seðlabankanum fyrir stundu.

Flanagan sagði að sendinefndin hefði átt árangursríka fundi með háttsettum embættismönnum, fulltrúum atvinnulífsins og verkalýðsfélaga.

Þá hefur verðbólga hjaðnað hraðar en AGS gerði ráð fyrir sem eykur á möguleikana á stýrivaxtalækkun.

Í tilkynningu sem sendinefndin sendi frá sér fyrr í dag kemur fram að horfur í efnahagslífinu séu í grófum dráttum í samræmi við það sem áætlun AGS og íslenskra stjórnvalda gerir ráð fyrir.

„Efnahagsáfallið hefur leitt til samdráttar í efnahagsumsvifum en ætla má að aukinnar virkni fari að gæta í lok þessa árs. Gengi íslensku krónunnar er stöðugt og verðbólga virðist vera á niðurleið. Báðir þessir þættir gefa til kynna að efnahagsáætlunin er að skila árangri,“ segir í tilkynningunni.

Flanagan sagði að á fundum sínum með embættismönnum hefði verið farið yfir hina ýmsu möguleika á bæði tekjuöflun og eins útgjöldum ríkisins. Hann sagði að engar ákvarðanir hefðu verið teknar enda væri það í höndum stjórnvalda að taka ákvarðanir um bæði skattheimtu og útgjöld.