Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, segir að hans uppáhaldsheimspekingur sé íshokkíleikmaðurinn Wayne Gretzky. Aho sagði sögu af því þegar Gretzky var spurður að því hver munurinn væri á góðum leikmönnum og þeim bestu. Gretzky sagði að góður leikmaður skautaði þar sem pökkurinn væri á hverjum tíma, en bestu leikmennirnir skautuðu þar sem pökkurinn verði í framtíðinni. Þetta verði ríki að hafa í huga þegar þau gera sínar áhætlanir, einkum á krepputímum.

Aho er aðalræðumaður á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í dag. Hann sagði að margt væri hægt að læra af reynslu Finna eftir kreppuna, sem Finnland gekk í gegnum á tíunda áratug síðustu aldar. Hann segir að staðan þar hafi ekki verið ósvipuð því sem Ísland upplifði eftir hrunið 2008. Efnahagsbóla hafi blásið út, en hún sprakk svo þegar Sovétríkin féllu. Landsframleiðsla féll mjög hratt. Atvinnuleysi fór úr 3,5% í tæplega 20%. Ríkisfjármálin litu mjög vel út á bóluárunum, en sú staða var ekki raunveruleg heldur byggðist á mikilli skuldasöfnun og skuldsettri neysla sem bjó til ranga mynd af hagkerfinu.

Hann segir hins vegar að Finnland hafi jafnað sig tiltölulega hratt. Landsframleiðsla dróst saman um 7% árið 1991 en hagvöxtur var aftur kominn þremur árum seinna. Nefndi hann nokkur atriði sem hann hafi lært af reynslu Finnlands.

Í fyrsta lagi séu kreppur ekki bara vandamál, heldur bjóði þær upp á tækifæri. Til dæmis tækifæri til að flytja auðlindir og fólk úr gömlum úreltum geirum atvinnulífsins í nýja og hagkvæmari geira. Fólki hættir við að horfa til baka í stað þess að horfa fram á við.

Skýr stefna sé nauðsynleg til að hægt sé að rífa þjóð upp úr kreppu. Finnland ákvað að ná aftur samkeppnishæfni í framleiðslugeiranum. Fall finnska marksins skipti máli í því máli, en fyrirtæki gerðu líka mikið til að auka framleiðni með því að taka upp nýja tækni. Tenging Finnlands við evrópska hagkerfið og evrópska markaði skipti líka grundvallarmáli í enduruppbyggingu Finnlands, að sögn Aho.

Látið sáðkartöflurnar vera

Þá segir hann að þegar hungrið sverfi að megi ekki borða sáðkartöflurnar. Nauðsynlegt hafi verið að skera niður ríkisútgjöld, en á sama tíma ákvað ríkisstjórnin að auka fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Þetta hafi margborgað sig til lengri tíma litið. Lögð hafi verið áherslu á menntun, einkum tæknimenntun.

Hann sagði að sýna þurfi þolinmæði við þessar aðstæður. Það taki tíma fyrir samfélög og hagkerfi að jafna sig eftir þung áföll. Félagsleg vandamál geti varað mun lengur en efnahagsleg áhrif kreppunnar.

Síðasti lærdómurinn sem hann sagði að draga mætti af reynslu Finna sneri að stjórnmálamönnum. Stjórnmálamenn hafi ekki þau forréttindi að geta hugsað um kosningar á krepputímum og þeir megi ekki móta sína stefnu með kosningar í huga. Það sé betra að tapa kosningum eftir að hafa gert sitt allra besta til að bæta úr hlutunum.

Hann lauk sínu erindi með því að leggja áherslu á að bæta framleiðni, einkum í þjónustugeiranum, bæði hjá einkaaðilum og hjá hinu opinbera. Nauðsynlegt sé að draga úr útgjöldum hins opinbera, en það sé í raun ómögulegt án þess að snerta heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfin. Ef framleiðni og skilvirkni er aukin í þessum geirum sé hins vegar hægt að ná raunverulegum sparnaði án þess að draga úr þjónustu.