Rekstur hins fjögurra ára gamla tölvuleikjafyrirtækis Gogogic ehf. gengur samkvæmt áætlun en í viðtali við Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri félagsins við Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kemur fram að unnið er að þvía ð þróa kennsluleiki á vegum félagsins.Jónas Björgvin segir fjármögnun íslenska tölvuleikjaiðnaðarins skilvirkari en þekkist víðast erlendis.

Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic ehf., segir í viðtali við tímaritið að nú starfi um 20 manns hjá fyrirtækinu, en félagið var stofnað í mars 2006. Hann segir mikinn vilja innan tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi til þess að vinna með menntakerfinu til þess að efla nám og auka notkun tölvuleikja sem kennslutækis. Segir hann að drjúgur hluti af starfi hans fari í að fjármagna leikjaþróunina. Því  komi sér vel að fá styrk eins og félagið fékk á dögunum frá Norræna tölvuleikjaverkefninu (The Nordic game Program).

Sniðug leið í kennslu

Tölvuleikir eru í eðli sínu þannig að þeim er ætlað að ná athygli fólks á skjótvirkan hátt. Því mætti ætla að skólakerfið gripi slíkt á lofti til að efla afkastagetu og færni skólakerfisins við að miðla þekkingu til nemenda. Íhaldssemi skólakerfisins virðist þó vera þar nokkur hindrun, en Jónas segist þó vera vongóður og telur að töluverður áhugi sé innan íslenska skólakerfisins um að nýta sér tækni tölvuleikjaheimsins. Tækifærið hér á Íslandi ætti líka að vera einstakt þar sem nálægðin sé mikil og mun styttri boðleiðir en í skólakerfum stærri þjóða.

„Hér höfum við tækifærið. Þetta væri klárlega sniðugasta leiðin til að miðla þekkingu. Þess má geta að þetta fyrirtæki okkar sprettur að nokkru leyti upp úr lokaverkefni sem unnið var í Háskólanum í Reykjavík."

Sjá nánar í Áramót, tímariti Viðskiptablaðsins.