*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 10. mars 2018 14:05

Áhyggjur af arðsemi Arion

Víða hafa komið fram áhyggjur af arðsemi og vaxtarmöguleikum Arion banka í aðdraganda skráningar bankans á markað.

Snorri Páll Gunnarsson
Arðsemi Arion banka er töluvert undir meðalarðsemi evrópskra og norrænna banka.
Haraldur Guðjónsson

Víða hafa komið fram áhyggjur af arðsemi og vaxtarmöguleikum Arion banka, sem og íslensku viðskiptabankanna almennt, í aðdraganda skráningar Arion á markað, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stefnt er að tvískráningu bankans á markað á Íslandi og í Svíþjóð í vor.

Arion banki hagnaðist um 14,4 milljarða króna á síðasta ári borið saman við 21,7 milljarða árið 2016. Arðsemi eigin fjár bankans var 6,6% en var 10,5% árið áður. Eigið fé var 225,6 milljarðar í árslok en var 211,2 milljarðar árið áður og lækkaði eiginfjárhlutfall bankans úr 26,8% í 24% milli ára

Í verðmati Capacent á Arion frá því í byrjun febrúar segir að til framtíðar séu vaxtarmöguleikar íslensku bankanna hverfandi og að öllum líkindum muni þeir takmarkast við innlendan markað og fólksfjölgun. Í norrænum og evrópskum samanburði standa íslensku bankarnir þar að auki höllum fæti sé litið til arðsemi og kostnaðar.

Eigið fé íslensku bankanna hefur verið vel umfram lögbundnar kröfur, sem dregið hefur úr arðsemi eigin fjár, en að meðaltali er arðsemi eigin fjár evrópskra banka 9% og á Norðurlöndunum er hún rúmlega 11%. Þá eru kostnaðarhlutföll íslensku bankanna hærri en hjá erlendum bönkum vegna hærri launakostnaðar, opinberra gjalda og skatta.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins nefna bankaskattinn sérstaklega í þessu samhengi. Um sé að ræða séríslenska kvöð sem rýrir söluvirði Arion banka og ávinning ríkisins af sölu Arion ásamt því að draga úr samkeppnishæfni á lánamarkaði. Kemur það nokkuð á óvart af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur ríkissjóður beinan hag af því að hámarka söluvirði Arion banka vegna veðskuldabréfs Kaupþings og afkomuskiptasamnings Kaupþings og ríkisins. Hins vegar stuðalr skatturinn að hærri vaxtamun við útlönd.

Þó að ofangreindir þættir dragi mögulega úr áhuga erlendra langtímafjárfesta á Arion banka gæti verið áhugi til staðar hjá erlendum verðbréfasjóðum og vogunarsjóðum að kaupa í banka sem á gæðamikið útlánasafn og býður upp á möguleika á miklum arðgreiðslum. Þess má geta eiga vogunarsjóðir yfir helmingshlut í Danske Bank. 

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins væri hægt að auka söluvirði Arion banka um tugi milljarða með lækkun eigin fjár, afnám bankaskatts og sölu Valitors, Varðar og Stefnis, dótturfélaga Arion banka. 

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Arion banki bankaskattur arðsemi