*

fimmtudagur, 24. september 2020
Erlent 11. febrúar 2020 17:57

Air Italy hættir starfsemi

Flugfélag með rætur aftur til ársins 1963 og að helmingi í eigu Qatar Airlines fer í gjaldþrotaskipti.

Ritstjórn
Flugfélagið Air Italy hét áður Meridiana, en þar áður Alisarda.
epa

Flugfélagið Air Italy, að 49% í eigu Qatar Airways, hættir að fljúga eftir 25. febrúar næstkomandi og verður félagið í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta. Hefur félagið lofað þeim sem eiga pantað flug eftir 25. febrúar endurgreiðslu, en þeir sem eiga flug þangað til komist í ferðir sínar, þó með öðrum flugfélögum.

Ríkisflugfélag olíufurstadæmisins Qatar hafði sagst vera tilbúið til að axla sína ábyrgð í að styðja við það sem félagið kallar vöxt félagsins, en segir það einungis mögulegt ef allir hluthafar leggi hönd á plóg.

Það virðist þó ekki hafa gengið eftir og verður því félaginu, sem var stofnað í núverandi mynd 1. mars 2018, slitið eftir rétt tæplega tveggja ára starfsemi. Það var þó upphaflega stofnað sem Alisarda árið 1963 en starfaði sem Meridiana frá árinu 1991.

Í yfirlýsingu Qatari airline segir að staðan á flugmarkaði sé sífellt erfiðari með breyttum samkeppnisaðstæðum. Í umfjöllun Simpleflying er vísað í fleiri gjaldþrot síðustu ára eins og Thomas Cook í Bretlandi, en svo má einnig nefna fall Wow air hér á landi.

Túristi sagði fyrst frá hér á landi en þar kemur fram að nafnabreytingin í Air Italy varð við kaup Qatar Airlines í félaginu, sem hefur tólf vélar í sínum flota, þar af þrjár kyrrsettar Boeing MAX 737 vélar.