Deiligistiþjónustufyrirtækið Airbnb tryggði sér eins milljarðs dollara lán frá stofnanafjárfestum á þriðjudag. Er þetta önnur jafnháa fjármögnunin sem fyrirtækið sækir sér síðan kórónuveiran fór á stjá.

Milljörðunum tveimur er ætlað að tryggja framtíð fyrirtækisins, en mikill samdráttur í ferðalögum hefur bitnað verulega á tekjum þess.

Ekki komu fram skilmálar lánsins né hverjir lánveitendur væru, en samkvæmt heimildamanni Wall Street Journal er lánstíminn fimm ár, og vaxtakjörin Lundúnskir millibankavextir – betur þekktir sem Libor – að viðbættu 7,5% álagi.