Frá því að átaksverkefni til að efla vöktun á heimagistingu var hrundið af stokkunum í sumar hafa starfsmenn Heimagistingarvaktar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu farið í 245 vettvangsheimsóknir.

Þar af hefur 43 málum verið lokið með álagningu stjórnvaldssekta, og að auki eru tugir mála til meðferðar vegna brota á skráningarskyldu. Eru af þeim sökum fyrirhugaðar og álagðar stjórnvaldsektir hátt í 71,5 milljónir króna, en sektirnar geta numið frá 10 þúsund krónum upp í milljón krónur fyrir hvert brot.

Vaktin, sem fjölgaði starfsmönnum úr þremur í tíu, hefur jafnframt óskað eftir lögreglurannsókn og eftir atvikum lokun á 24 rekstrarleyfisskyldum gististöðum á landsvísu. Loks er Heimagistingarvaktin í samstarfi við skattrannsóknaryfirvöld sem hafa fengið áframsendar upplýsingar um 420 fasteignir.

Tvöföldun skráninga á einu ári

Sigurður G. Hafstað, fagstjóri hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, segir ánægjulegt hvaða áhrif eftirlitið og aukin umræða hefur haft á tíðni skráninga. „Undir lok árs 2017 hafði embætti Sýslumanns borist 1.056 skráningar en í lok árs 2018 voru þær orðnar 2.022. Þetta er næstum því 100% aukning á ári,“ segir Sigurður.

„Ástandið hefur batnað mikið síðan það var hvað verst á árunum 2016 og 2017, en þá held ég að allt að 80% þessarar starfsemi hafi farið fram án tilskilinna leyfa og skráninga. Síðan átaksverkefni stjórnvalda hófst hafa skráningarnar margfaldast en að sama skapi hefur framboð á húsnæði í skammtímaleigu eitthvað dregist saman.“

Lögin leyfðu skammtímagistingu án rekstrarleyfis

Samkvæmt lögum sem tóku gildi 1. janúar 2017 þurfa einstaklingar ekki lengur rekstrarleyfi til að leigja út húsnæði til skammtímagistinga, en þeir þurfa þess í stað að skrá sig hjá Sýslumanni. Jafnframt er hámarksútleiga slíkrar gistingar 90 dagar á ári, og skulu samanlagðar tekjur eignanna ekki nema hærri fjárhæð en tveimur milljónum króna.

Það gerir rétt um 22 þúsund krónur á dag að meðaltali. Stutt yfirferð yfir vef Airbnb sýnir að eins herbergja íbúð með gistingu fyrir tvo miðsvæðis fer nú á um 11 til 15 þúsund krónur meðan tveggja herbergja íbúð með gistingu fyrir fjóra til sex fer á um 20 til 25 þúsund krónur. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er verðið svo um 40% hærra yfir sumartímann.

Fá fjölmargar ábendingar

Sigurður segir eftirlitið fara fram bæði eftir ábendingum borgara sem og með frumkvæðiseftirliti. „Okkur berast fjölmargar ábendingar í gegnum ábendingarhnapp á vefsíðu sýslumanna, en mikið af þeim koma til dæmis frá nágrönnum í fjölbýli, þó þær einskorðist ekki við það,“ segir Sigurður, sem segir Airbnb og slíkar síður ekki veita embættinu neinar upplýsingar.

„Frumkvæðiseftirlitið fer fram með könnun á þessum helstu bókunarsíðum, sem eru m.a. Airbnb og Booking.com, en þær takmarkast ekki við þær, og eftir atvikum öðru markaðsefni. Þar athugum við hvort viðkomandi auglýsingar séu með bókunarnúmer og hvort þær hafi tilskilin leyfi eða skráningu, og að aðilar haldi sig innan hámarksútleigutíma. Almennt er ekki farið í vettvangsheimsóknir nema sterkar vísbendingar séu um að stunduð sé óskráð skammtímaleiga í fasteigninni.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .