Ákæruvaldið og dómstólar eru borin þungum sökum í bréfum, sem verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í Al-Thani málinu svokallaða sendu Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Með bréfunum tilkynntu þeir Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, og Ragnar H. Hall, verjandi Ólafs, um að þeir myndu hætta störfum sem verjendur þeirra vegna margs konar alvarlegra annmarka sem þeir telja að hafi verið á rannsókn Al-Thani málsins og meðferð þess fyrir dómstólum.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag sagði Ragnar að steininn hefði tekið úr með tveimur dómum sem féllu í Hæstarétti á fimmtudaginn síðasta. Þar hafnaði Hæstiréttur kröfu sakborninga um að aðalmeðferð yrði frestað í málinu svo þeir fengju tíma til að kynna sér og eftir atvikum svara nýjum gögnum sem ákæruvaldið hafði lagt fram.

Segja sakborninga ekki hafa notið lögbundinna réttinda

Frestur til að skila greinargerðum með málunum hófst klukkan 10:25 þann fjórða apríl og segja þeir Gestur og Ragnar að hann sé með lögum ákveðinn sólarhringur. Dómur féll hins vegar í Hæstarétti skömmu eftir hádegi sama dag. Hæstiréttur vísaði málinu frá með vísan til þess að úrskurð héraðsdóms um synjun frests væri ekki kæranlegur. „Þegar ég fékk að vita að dómur var fallinn í málinu var ég að skrifa greinargerð sem m.a. snerist um það af hverju slíkur úrskurður er kæranlegur,“ sagði Gestur á fundinum.

Þá megi lesa það úr dómunum að ákæruvaldið hafi sent inn sínar greinargerðir. Segja þeir að skjólstæðingar þeirra hafi ekki notið þeirra réttinda sem sökuðum mönnum eigi að vera tryggð samkvæmt stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.

„Svo gróflega hafa slík réttindi verið brotin á honum [Sigurði] við meðferð málsins á rannsóknarstigi og fyrir dómi, að ofangreindir dómar Hæstaréttar eru aðeins kornið sem fyllir mælinn,“ segir í bréfi Gests.

Þar er útgáfa handtökuskipunar og í kjölfarið svokallaðrar „Red Notice“ eftirlýsingar Interpol einnig gagnrýnd harðlega. Sérstakur saksóknari hafi gefið rangar upplýsingar um Sigurð þegar hann sóttist eftir handtökuskipun og eins hafi embættið gefið Interpol rangar upplýsingar þar sem Sigurður var sagður flóttamaður og á flótta undan ákæru. Þetta hafi verið gert þótt embættinu hafi verið ljóst að Sigurður dveldi heima hjá sér í London og að engin ákæra hefði þá verið gefin út á hendur honum.

Þá gagnrýna þeir það að aðgengi verjenda að gögnum málsins hafi verið afar takmarkað og að „í stað þess að veita verjendum aðgang að gögnunum hefur ákæruvaldið ákveðið hver þessara gagna hafa orðið hluti af „gögnum málsins“ og hver ekki.

Upptökur af samtölum verið verjendur geymdar

Þá segir í bréfinu að við rannsókn málsins hafi embætt sérstaks saksóknara virt að vettugi reglur um að trúnaðarsamband sakbornings við lögmann hans sé virt. „Þegar einn sakborninga í málinu neytti réttar síns til þess að fara á starfsstöð sérstaks saksóknara til þess að hlusta á upptökur sem gerðar höfðu verið þegar sími hans var hleraður af rannsakendum hlustaði hann m.a. á upptöku fjögurra samtala milli sín og verjanda síns.“ Þarna er vísað til samtala Hreiðars Más Sigurðssonar og Harðar Felix Harðarsonar, verjanda hans.

Þá hafi Ólafur Ólafsson einnig fengið að hlusta á samtal sitt við Gest, sem var verjandi Sigurðar.

Hörður Felix hefur sent bréf til Ríkissaksóknara, sem hefur eftirlit með símhlustunum lögreglu, þar sem hann vekur athygli á þessu, en samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála á að eyða upptökum af samtölum sakbornings og verjanda hans þegar í stað. Í bréfinu kemur einnig fram að með því sé lögð fram kæra á hendur starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara til refsingar vegna framkvæmdast símahlustunarinnar.

Þeir Gestur og Ragnar segja báðir að ákvörðun þeirra hafi verið borin undir skjólstæðingana og að þeir hafi veitt samþykki sitt fyrir henni. Ólafur hefur þegar óskað eftir því að honum verði skipaður nýr verjandi og sagðist Gestur fastlega gera ráð fyrir því að Sigurður gerði slíkt hið sama. Ekki er vitað hvenær dómari tekur ákvörðun um það hvort hann tekur frágöngu verjendanna gilda og hvenær sakborningunum verður þá skipaðir nýjir verjendur. Ætla má þó að aðalmeðferð málsins, sem átti að hefjast næstkomandi fimmtudag, frestist.