Viðskiptaráð Íslands hefur sent frá sér athugasemdir að ósk fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Með frumvarpinu er leitast við að aðlaga íslenska löggjöf á sviði fjármálamarkaði að löggjöf nágrannaríkjanna.

Viðskiptaráð telur margt til bóta í frumvarpinu, sér í lagi auknar áherslur á áhættustýringu og góða stjórnarhætti fjármálafyrirtæki. Ráðið leggur hins vegar áherslu á að ekki séu innleiddar reglur til viðbótar því sem fram kemur í EES-regluverki sem valda óhagræði fyrir innlenda aðila, þar sem slík löggjöf kunni að skerða samkeppnishæfni þeirra og hækka fjármagnskostnað einstaklinga og fyrirtækja.

Viðskiptaráð gerir sérstakar athugasemdir við grein frumvarpsins sem fjallar um kaupaukakerfi. Eru þar settar fram reglur sem eru of strangar að mati Viðskiptaráðs þar sem íslenskum fjármálafyrirtækjum er sett þrengri mörk hvað varðar greiðslu kaupauka en kveðið er á um í Evróputilskipun, og telur ráðið að slíkt geti skaðað samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Þá gerir Viðskiptaráð einnig athugasemdir við ákvæði frumvarpsins um fjárhæðarmörk sem sett eru vegna stórra áhættuskuldbindinga. Séu fjárhæðarmörkin mun lægri en þau sem koma fram í Evróputilskipun án þess að rökstutt sé hvers vegna. Að mati Viðskiptaráð þurfa röksemdir að liggja að baki því þegar settar eru reglur hérlendis sem eru meira íþyngjandi en tíðkast annars staðar.