Hollenskt dótturfélag Eimskipafélags Íslands ætlar að áfrýja ákvörðun samkeppnisyfirvalda í Hollandi, sem sektað hafa félagið vegna brota á þarlendum samkeppnislögum á árunum 2006-2009. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Eimskipafélaginu. Hún hljóðar svo í heild sinni:

„Í ljósi þess að Samkeppnisyfirvöld í Hollandi hafa í dag sent frá sér tilkynningu er varðar sektir vegna frystigeymslumarkaðar þar í landi vill Eimskip koma eftirfarandi á framfæri.

Samkeppnisyfirvöld í Hollandi hafa haft til skoðunar frystigeymslumarkaðinn þar í landi með áherslu á grænmeti og fiskafurðir yfir tímabilið 2006-2009. Hollenskt eignarhaldsfélag, þáverandi dótturfélag A1988 hf., átti frystigeymslufyrirtækið Daalimpex B.V. að fullu frá janúar 2007 til febrúar 2009. Í kjölfar endurskipulagningar A1988 hf. í september 2009 varð eignarhaldsfélagið hluti af samstæðu Eimskipafélags Íslands hf.

Samkeppnisyfirvöld í Hollandi hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að ýmislegt hefði betur mátt fara á þessum markaði á árunum 2006 - 2009. Vegna eignarhalds á Daalimpex B.V. á tímabilinu 2007 til 2009, eða þar til það varð gjaldþrota, hefur hollenska eignarhaldsfélagið verið sektað. Eins og greint var frá í fréttatilkynningu þann 25. Febrúar 2016 með ársuppgjöri Eimskipafélagsins fyrir árið 2015 þá gjaldfærði félagið 900 þúsund evrur vegna þessa máls á árinu 2015.

Í ljósi þess að Eimskipafélag Íslands hf. hefur aldrei haft neina aðkomu að málefnum Daalimpex og að engir af starfsmönnum Eimskipafélag Íslands hf. eru aðilar málsins þá hefur hollenska eignarhaldsfélagið ákveðið að áfrýja þessu máli.“