Ákvörðun um kaup á verðbréfum peningamarkaðssjóðanna var á hendi bankanna, segir í skriflegu svari viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns VG.

Þingmaðurinn lagði fjölmargar fyrirspurnir tengdar peningarmarkaðssjóðum Landsbankans, Kaupþings og Glitnis, fyrir viðskiptaráðherra.

Svörum hans var dreift á Alþingi í dag.

Áður hafði fjármálaráðherra svarað skriflega sambærilegum fyrirspurnum þingmannsins.

Öll viðskipti á viðskiptalegum forsendum

Í svarinu segir m.a. að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafi viðskipti fjármálastofnana við rekstrarfélög sjóðanna byggst á utanaðkomandi verðmati endurskoðunarfyrirtækja. „Af hálfu ráðuneytisins var lögð þung áhersla á að öll viðskipti með verðbréf sjóðanna ættu að vera á viðskiptalegum forsendum og að jafnræðis yrði gætt."

Þingmaðurinn spyr m.a. hvernig greiðslur til kaupa á verðbréfum sjóðanna hafi verið fjármagnaðar. Í svarinu segir: „Í stað verðbréfanna voru látnar innstæður í viðkomandi bönkum. Við slit sjóðanna var hlutum í sjóðunum skipt fyrir innlán."