*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 13. nóvember 2020 07:00

Álagsárásum fjölgað verulega

Aukin gróðavon vegna mikilvægis fjarþjónustu í tengslum við heimsfaraldurinn hefur ýtt undir tölvuárásir.

Júlíus Þór Halldórsson
Anton Egilsson er forstöðumaður skýja- og öryggislausna hjá Origo.
Aðsend mynd

Svokölluðum DDoS (Distributed Denial of Service) álagsárásum á tölvukerfi íslenskra fyrirtækja og stofnana hefur fjölgað verulega undanfarna mánuði. Árásunum hefur fjölgað um 80% milli ára, og á skólastarf á netinu hefur þeim fjölgað um 350%.

„Við höfum séð þetta eftir sumarið, mjög kerfisbundnar og hnitmiðaðar árásir,“ segir Anton Egilsson, forstöðumaður öryggismála hjá Origo. Árásirnar eru vanalega gerðar í kjölfar hótunar um að ef tiltekin upphæð verði ekki greidd, verði vefþjónusta viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar gerð óstarfhæf.

Tölvuþrjótarnir nýta sér það að vegna faraldursins reiða mörg fyrirtæki og stofnanir sig nær alfarið á vefinn til að eiga í nauðsynlegum samskiptum við viðskiptavini og skjólstæðinga. Það er því mun skaðlegra en áður ef vefþjónusta þeirra er trufluð, og gróðavon þeirra sem hafa vald til að lama hana því meiri. „Ég held að það sé kannski vinkillinn þar á bak við, að þessir aðilar geti sér til um hvaða starfsemi eða þjónusta sé það mikilvæg að menn séu tilbúnir að borga fyrir að halda henni áfram.“

Anton segir þessa tegund árása vera orðna mjög háþróaða hjá ákveðnum aðilum, sem selji þær nú einfaldlega eins og hverja aðra þjónustu á djúpnetinu. „Þetta er bara business. Kaupandinn velur svo bara hversu öfluga hann vill hafa árásina og hversu langa, og borgar eftir því.“

Til eru varnir sem geta komið að einhverju leyti í veg fyrir sumar árásir af þessu tagi, en séu árásirnar háþróaðar er afar erfitt að stöðva þær alveg.

Stikkorð: Anton Egilsson netárás Origo