Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segist „nokkuð viss um að botninum hafi þegar verið náð“. Þetta kom fram í viðtali við hann á ABC sjónvarpsstöðinni en þar færði Greenspan ýmis rök fyrir þessari skoðun sinni.

Hann segir framleiðslu vera að aukast í nokkrum atvinnugreinum og að bati sé sýnilegur í fjármálakerfinu. Þetta skipti máli því að þar hafi vandinn legið.

Hrun ekki inni í myndinni

Þegar George Stephanopoulos, stjórnandi þáttarins og fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Bills Clintons forseta, spurði Greenspan út í líkurnar á hruni, svaraði Greenspan því til að það væri ekki inni í myndinni.

Greenspan sagðist telja að fjárframlag ríkisins, sem kallað hefur verið TARP, til að endurreisa fjármálakerfið hafi hjálpað mikið. Þá skipti miklu að verðmæti hlutabréfa í Bandaríkjunum hafi aukist um 3500 milljarða dala.

Býst við góðum hagvexti þegar á þessum ársfjórðungi

Hann sagði einnig að birgðastaða væri nú svo lág að hann gerði ráð fyrir hröðum viðsnúningi til vaxtar. „Ég tel að vöxturinn á þessum fjórðungi kunni vel að verða 2,5%,“ sagði Greenspan. Hann sagði jafnframt að atvinnuleysið myndi halda áfram að vaxa, en hægar en verið hefði.

Greenspan sagði einnig að helsta hættan væri ef sú staða kæmi upp að húsnæðisverð lækkaði. Það yrði að vera stöðugt, því að annars yrði um verulega greiðsluerfiðleika að ræða.

Telur arftaka sinn of bjartsýnan

Um verðbólgu sagðist hann telja að núverandi seðlabankastjóri, Ben Bernanke, væri of bjartsýnn að telja sig hafa um tvö ár áður en hún færi að láta á sér kræla. „Ég vona að þeir hafi rétt fyrir sér,“ sagði hann, „en ég held að svo sé ekki.“

Þess má að lokum geta að því hefur verið haldið fram að Alan Greenspan hafi í sinni tíð lækkað vexti of mikið og of lengi í því skyni að halda uppi hagvexti. Það hafi stuðlað að eignaverðsbólu sem sé ein af skýringunum á þeirri djúpu efnahagslægð sem nú gengur yfir heimsbyggðina.