Fyrrum bankastjóri bandaríska seðlabankans, Alan Greenspan, sagði í dag að versta lánsfjárkreppan sé yfirstaðin. Greenspan sagði einnig að húsnæðisverð ætti enn eftir að lækka mikið og það væri ólíklegt að stöðugleiki næðist í þeim efnum í lok árs.

Þessi orð lét Greenspan falla á ráðstefnu í New York, en hann krafðist þess að fjölmiðlamenn sem fylgdust með ræðu hans mættu ekki flytja fréttir af henni heldur einungis hlusta á ræðuna fyrir sjálfa sig. Reuters hefur ummæli Greenspan eftir heimildarmönnum sem ekki vildu láta nafns síns getið.

Sem yfirmaður Seðlabanka Bandaríkjanna á sínum tíma lækkaði Greenspan vexti alveg niður í 1%, sem sumir hafa haldið fram að hafi verið valdur að stöðu fasteignamarkaðar Bandaríkjanna nú. Greenspan hefur hins vegar þvertekið fyrir að hann hafi valdið vandamálum þar.

Heimildarmenn Reuters sögðu einnig að Greenspan telji að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði líklega lítill í nokkurn tíma og að svokölluð dómsdagsframvinda (e. doomsday scenario) væri ólíkleg.

Sumir greiningaraðilar telja þegar vera hafið samdráttarskeið í efnahagskerfi Bandaríkjanna, þrátt fyrir 0,6% hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi.