Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra, mun fara í ótímabundið leyfi frá störfum frá og með næstkomandi mánudegi. Ástæða þess er sú að hann var fyrr í októbermánuði skipaður varasaksóknari í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.

Sigríður J. Friðjónsdóttir aðstoðarríkissaksóknari verður aðalsaksóknari í því máli. Við starfi Helga sem yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra mun taka Alda Hrönn Jóhannesdóttir. Hún hefur starfað sem staðgengill lögreglustjórans á Suðurnesjum að undanförnu.

Ekki liggur fyrir hversu lengi Helgi Magnús, sem er einnig formaður Ákærendafélags Íslands, og Sigríður verða frá sínum venjubundnu störfum vegna landsdómsmálsins.