Salan á verslunareiningum Iceland-keðjunnar, sem er í eigu Baugs og fleiri fjárfesta, íslenskra og erlendra, telst með stærri eignaframboðum á írskum fasteignamarkaði, segir í frétt Irish Independent. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

Iceland-keðjan lokaði sem kunnugt er nýlega sjö verslunum sínum á Írlandi. Iceland-keðjan rak sex verslanir í Dublin og eina í Donegal. Dublinarverslanirnar er m.a. að finna í Thomas Street, Finglas, Raheny, Ballyfermot, Talbot Street og Navan Road. Allar eru þær yfir 740 fermetrar að stærð en sú stærsta er í Ballyfermot og er hún um 930 fermetrar.

Leigusamningur Iceland við eigendur verslunarhúsnæðisins er mislangur, allt frá 11 árum í Finglas einingunni til 26 ára í Letterkenny versluninni.

Í frétt Viðskiptablaðsins í dag er rætt um að ýmsar getgátur hafa verið uppi um hverjir yrðu hugsanlegir kaupendur og eru þýsku afsláttaverslanirnar Aldi og Lidl meðal þeirra nafna sem upp hafa komið. Þá er einnig talið að BWG gæti sýnt kaupunum áhuga en hinar stóru einingarnar gætu þeir líkast til notað undir stórar Eurospar verslanir. Í Irish Independent kemur fram að líklegt þyki að verslanirnar verði seldar allar saman.