Ferðamönnum frá Kanada hefur fjölgað mjög ört á síðustu árum í kjölfar stóraukins framboðs áætlunarferða til landsins. Þetta kemur fram á vef Túrista . Í maí innrituðu sig 4.020 kanadískir ferðamenn í flug frá Keflavíkurflugvelli, sem er það mesta í einum mánuði hingað til. Þá nam fjöldinn 11.318 fyrstu fimm mánuði þessa árs, sem er tvöföldun frá sama tímabili i fyrra.

Icelandair hóf að fljúga til Kanada árið 2007 þegar Halifax bættist við leiðakerfi félagsins. Ári síðar var byrjað að fljúga til Toronto. Í nóvember sl. var hömlum á flugi til Kanada aflétt og í kjölfarið flaug Icelandair til Toronto yfir vetrarmánuðina. Í vor bættist Edmonton við hóp áfangastaða og loks Vancouver í maí.

Á meðan heildarferðamannafjöldi til Íslands hefur aukist um 150 prósent á síðasta áratug þá hefur fjöldi ferðamanna frá Kanada áttfaldast. Kanada er nú áttunda fjömennasta þjóðin í hópi ferðamanna til Íslands.