*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 12. desember 2017 08:57

Aldrei hærri launakostnaður Alþingis

Með fjölgun flokka fjölgar þingflokks- og flokksformönnum með álagsgreiðslur en frá 2013 hefur þeim fjölgað úr 5 í 8.

Ritstjórn
Sem formaður flokks sem ekki situr í ríkisstjórn fær til að mynda Logi Einarsson í Samfylkingunni 50% álag á þingfararkaup sitt.
Haraldur Guðjónsson

Karl M. Kristjánsson aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis segir að launakostnaður alþingismanna hafi aldrei verið hærri en nú að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

„Bæði kemur til kjararáðshækkunin í fyrra og síðan fjölgun þingflokka á Alþingi sem leiðir til þess að fleiri þingflokksformenn fá álagsgreiðslur og að auki eru fleiri flokksformenn utan stjórnar sem fá 50 prósent álag á laun,“ segir Karl en árið 2013 voru fimm flokkar á Alþingi en nú eru þeir átta.

Með fjölgun flokka á Alþingi hefur hlutfall þeirra alþingismanna sem rétt eiga á álagsgreiðslum á laun sín hækkað, því flokksformenn fá greitt 50% álag á þingfararkaupið og þingflokksformenn 15% álag.

Þó fá formenn sem einnig eru ráðherrar ekki þessa hækkun, svo nú eru 12 þingmenn á ráðherralaunum, það er ellefu ráðherrar auk forseta alþingis. Fimm til viðbótar eru formenn utan ríkisstjórnar, og eiga rétt á álagi þó einn flokkur hafni því. 

Loks fá alþingismenn fastar greiðslur vegna kostnaðar auk þess sem þingmenn utan af landi fá greiðslur vegna kostnaðar af fjarlægð milli heimilis og þingstaðar.