Borgarstjórn staðfesti á fundi sínum í kvöld að gengið yrði að kauptilboði Novators í húseignina við Fríkirkjuveg 11.

Í tilkynningu frá Novator kemur fram að félagið telur afar ánægjulegt að málið skuli loks til lykta leitt, en með samþykkt borgarstjórnar lýkur 15 mánaða söluferli.

„Í kjölfar umræðu um Hallargarðinn og hestagerði austan við Fríkirkjuveg 11 vill Novator árétta að aldrei hefur staðið til að hefta aðgengi almennings að Hallargarðinum, hestagerðinu eða lóðinni umhverfis húsið. Gerðið austan hússins verður áfram opið, jafnt börnum sem fullorðnum, og Hallargarðurinn verður hér eftir sem hingað til almenningsgarður og öllum opinn,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Novator hefur þegar lagt fram hugmyndir um breytt hlutverk þessarar einstöku húseignar í hjarta borgarinnar sem m.a. gera ráð fyrir fundarsölum og almenningssafni um ævi og störf athafnamannsins Thors Jensen.

„Nú þegar borgarstjórn hefur samþykkt söluna getur Novator hafist handa við að fullvinna tillögur um nauðsynlegt viðhald og breytingar á lóðinni umhverfis húsið, enda kallar breytt notkun þess á bætt aðgengi.

Novator vonast til að geta unnið að því að bæta aðgengi að húsinu í góðu samráði við borgaryfirvöld, nágranna Fríkirkjuvegs 11 og aðra íbúa borgarinnar,“ segir í tilkynningu frá Novator.