Alfesca er að ljúka samningum um sölu á frystisviði dótturfélags síns í Frakklandi, Delpierre (áður SIF France), til Icelandic Group að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Frystisvið Delpierre er staðsett í Wimille í Norður-Frakklandi og framleiðir frystar sjávarafurðir.

Velta frystisviðs Delpierre var um 50 milljónir Evra á síðastliðnu rekstrarári og framleidd voru um 17.000 tonn af afurðum en framleiðslugetan er um 35.000 tonn. Afurðir verksmiðjunnar hafa aðallega verið seldar á Frakklandsmarkaði.

Eftir þær umfangsmiklu breytingar sem orðið hafa á Alfesca frá árinu 2004, þegar ákveðið var að félagið skyldi einbeita sér að framleiðslu og sölu á kældum og fullunnum matvælum í Evrópu, hafði frystisvið Delpierre ekki nægileg tækifæri til samlegðar við aðra starfsemi Alfesca né skilaði það hagnaði í samræmi við markmið stjórnenda félagsins. Verði af sölunni mun rekstrarafkoma Alfesca batna á næsta fjárhagsári en eins og fram hefur komið hefur frystisvið Delpierre verið rekið með tapi.

Undanfarna mánuði hefur fjöldi sameininga og yfirtaka á fyrirtækjum átt sér stað á markaði fyrir frystar sjávarafurðir í Evrópu. Í því ljósi og þegar litið er til framtíðar er ljóst að frystisvið Delpierre hefur ekki nægan styrk eitt og sér til að vera samkeppnishæft á þessum markaði. Sem hluti af Icelandic Group, sem er leiðandi fyrirtæki á markaði fyrir frystar sjávarafurðir, mun frystisvið Delpierre hafa bolmagn til sjálfbærrar þróunar og vera betur í stakk búið að ná til stærri hluta evrópska markaðarins.

Eftir að sala frystisviðs Delpierre er frágengin mun Delpierre einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni sem snýr að kældum matvörum, þar á meðal reyktum laxi, síldarafurðum og saltfiski í neytendaumbúðum. Salan gerir Delpierre kleift að ná enn frekari samlegð með Labeyrie, dótturfélagi Alfesca í Frakklandi.
Verið er að ljúka samningsgerð vegna sölunnar sem háð er samþykki þar til bærra yfirvalda. Alfesca og Icelandic Group áforma að ljúka samningsgerðinni á næstu vikum.